• Aðalfundur Alþjóðasamtaka Bláa skjaldarins

  Á aðalfundi Alþjóðasamtaka Bláa skjaldarins fóru fram hefðbundin aðalfundarstörf en fundurinn var haldinn sem fjarfundur föstudaginn 4. september sl. frá kl. 13:00-15:45. Stjórnarkjör áttu sér stað og var nýr forseti kosinn, Peter Stone, en hann var áður varaforseti Bláa skjaldarins. Peter Stone tók við af Karl Habsburg sem hafði verið forseti Bláa skjaldarins til fjölda ára. Karl Habsburg og öðrum fráfarandi stjórnarmeðlimum var þakkað fyrir góð störf í þágu samtakanna.

  Eftirtaldir meðlimir voru kosnir til stjórnarsetu:
  -Kidong Bae, frá Suður Kóreu.
  -Hamady Gaye, frá Senegal.
  -Lidia Klupsz, frá Póllandi.
  -Klaus Weschenfelder, frá Þýskalandi.

  Einnig voru fjórir meðlimir aðildarfélaga Bláa skjaldarins: tilnefndir til stjórnarsetu:
  -Emilie Gagnet Leumas, fyrir hönd ICA,
  -Gerald Leitner fyrir hönd IFLA,
  -Peter Keller fyrir hönd ICOM 
  -Bijan Pouhani fyrir hönd ICOMOS.

  Skrifstofa UNESCO í Beirut og líbönsku samtök Bláa skjaldarins hafa unnið að því að kortleggja þær skemmdir sem urðu á menningarminjum og menningarstofnunum borgarinnar þegar sprengingin varð þar 4. ágúst sl. Karl Habsburg forseti Bláa skjaldarins fór og staðinn og skoðaði vegsummerki. Haldið verður áfram næstu vikur að greina skemmdir og koma starfsemi stofnananna í eðlilegt horf á ný. Gera má ráð fyrir að gífurleg vinna sé framundan við viðgerðir á þeim minjum og byggingum sem urðu eyðileggingunni að bráð.

  Næstu fundir Bláa skjaldarins verða haldnir 24. september og 23. október, og verða fjarfundir.

  Með kveðju,

  María Karen Sigurðardóttir, formaður landsnefndar Bláa skjaldarins á Íslandi

 • Námskeið um öryggismál menningarstofnanna

  Þann 14. ágúst sl. var haldið námskeið á Ísafirði í boði landsnefndar Bláa skjaldarins í samstafi við Byggðasafn Vestfjarða sem bar heitið Öryggismál menningarstofnana: möguleikar á samstarfi. Nathalie Jacqueminet, forvörður og safnafræðingur, hélt námskeiðið og fór það fram í fræðslumiðstöð Vestfjarða.

  Þáttakendur á námskeiðinu

  Markmið námskeiðsins var að hvetja menningarstofnarnir á Vestfjörðum að auka samstarf í fyrirbyggjandi aðgerðir og í viðbrögð við vá. Þátttakendur voru 7 þar á meðal fulltrúar Byggðasafns Vestfjarða, Héraðsskjalasafns, Almannavarna á Vestfjörðum og Gamla Bókabúðin á Flateyri.

  Landnefnd Bláa Skjaldarins þakkar Jónu Símonardóttir, forstöðumanni Byggðasafns Vestfjarða kærlega fyrir samstarfið og þátttakendum fyrir komuna.


  Dagskrá námskeiðsins var eftirfarandi:

  Kl.11.00-11.15 Blái Skjöldurinn á Íslandi
  K.11.15-11.30 Náttúruvá á Íslandi og áhrif á menningararfinn
  Kl.11.30-12.30
  Áhættugreining: hvað getur gerst og hvaða áhrif hefur það á safnkostinn?
  Forvarnir: Er hægt að fyrirbyggja skemmdir?
  -Viðbragðsáætlun fyrir safnkostinn: hversu raunhæf getur hún verið?
  -Neyðaraðstoð: fyrstu viðbrögð. Hverjir geta hjálpað?
  -Hlutverk almannavarna og björgunarsveita.
  -Forgangsröð björgunarstarfs: tillaga um sameiginlegt átak.
  -Endurreisn og  áætlunargerð: Þörf fyrir sérfræðiþekkingu og sjálfboðavinnu.
  -Viðhald neyðaáætlunarinnar.

  Kl.12.30-13.00 Hádegishressing í boði Byggðasafns Vestfjarða
  Kl.13.00-13.45 Hópavinna -fyrri hluti (skipt í hópa).
  Unnið að gerð áhættugreiningar fyrir safnkostinn við mismunandi vá (eyðublaði dreift til stuðnings)
  Mat á stöðu hverrar stofnunar: Er hún tilbúin til að takast á við vá? Tillögur um úrbætur.
  Kl.13.45-14.30  Kynning hópa og umræður 
  Kl.14.30-15.15 Hópsvinna -seinni hluti  (eyðublað dreift til stuðnings). Gerð áætlunar um björgun safnkostsBúa til tengslanet, kortleggja aðstoðina, búa til tímaramma fyrir endurreisn.
  Kl.15.15-15.30 Umræður

 • Málþingi Bláa skjaldarins frestað

  Landsnefnd Bláa skjaldarins hugðist standa fyrir málþingi í maí nk. um verndun menningararfs hér á landi með áherslu á viðbragðsáætlun menningarstofnanna; hver er staðan og hvert er framtíðarmarkmiðið?

  Í ljósi aðstæðna þarf landsnefndin því miður að fresta málþinginu. Landsnefndin mun tilkynna nýja dagsetningu þegar hún liggur fyrir.

  Með kveðju,
  Landsnefnd Bláa skjaldarins

  Blái skjöldurinn á Íslandi
 • Málþing Bláa skjaldarins 7. maí n.k.

  Landsnefnd Bláa skjaldarins stendur fyrir málþingi 7. maí n.k. frá kl. 13-17, í Hörpu.  Efni málþingsins er verndun menningararfs hér á landi með áherslu á viðbragðsáætlun menningarstofnanna; hver er staðan og hvert er framtíðarmarkmiðið?

  Eftirfarandi sérfræðingar munu segja frá því helsta sem er að gerast á þeirra verksviði:  

  • Ásta Hermannsdóttir hjá Minjastofnun mun tala um verndun og varðveislu menningarminja í nútíð og framtíð – stefnu og áskoranir.
  • Polly Christie,verkefnastjóri björgunaraðgerða frá Glasgow School of Arts mun segja  frá brunanum í Machintosh byggingunni (maí 2014 og júní 2018), með áherslu á vinnuna við endurbygginguna.
  • Nelly Cauliez, fagstjóri forvörslu Borgarbókasafns í Genf  sem mun fræða okkur um viðbragsáætlun og varðveislu menningarminja í Sviss með áherslu á bókasafn þeirra.
  • Einnig mun Rúnar Leifsson, sérfræðingur í mennta– og menningarmálaráðuneytinu, Rögnvaldur Ólafsson, lögreglufulltrúi frá Almannavörunum, Njörður Sigurðsson, sviðstjóri skjala- og upplýsingasviðs á Þjóðskjalasafni Íslandsog Nathalie Jacqueminet, forvörður og safnafræðingurvera með erindi.

  Þegar nær dregur verður sendur út póstur þar sem fólk getur skráð sig á ráðstefnuna. 
  Við hvetjum ykkur til að taka daginn frá: 7. maí frá kl. 13-17.

  Hvað er Blái skjöldurinn?

  Alþjóðasamtök Bláa skjaldarins – International Committee of the Blue Shield – voru stofnuð árið 1996 til að vinna að verndun menningararfs sem er í hættu vegna náttúruhamfara og stríðsátaka. Það voru aðilar alþjóðasamtaka safna (ICOM), menningarminjastaða (ICOMOS), skjalasafna (ICA) og bókasafna (IFLA) sem komu að stofnun Bláa skjaldarins en grundvöllur í starfi hans er Haag-sáttmálinn frá 1954. Eins og áður segir er markmið Bláa skjaldarins að vinna að verndun menningararfs heimsins með því að samhæfa viðbragðsáætlanir þar sem hættuástand verður. Það má því segja að Blái skjöldurinn er menningunni það sem Rauði krossinn er mannúðar- og hjálparstarfi.

  Bestu kveðjur

  Stjórn Landsnefndar Bláa skjaldarins

 • Yfirlýsing Bláa skjaldarins

  Yfirlýsing frá Bláa skildinum vegna mögulegrar árásar á íranskan menningararf

  Yfirlýsing Blue Shield International

  Sjá einnig yfirlýsinguna í heild sinni á heimasíðu Blue Shield International:  https://theblueshield.org/bsi-statement-on-potential-specific-targeting-of-cultural-sites-in-iran/?fbclid=IwAR2Rfn_rzTtde3YMPEQdouAYYQzXhXseLYrf-usoTgY7eJK2kAm6O2mDeBc