Á nýliðnum vetri tóku íslensk stjórnvöld mikilvægt skref í varðveislu menningarminja þegar þau fullgiltu Haag-samninginn frá 1954 um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum. Um leið var fyrsti viðauki samningsins frá sama ári fullgiltur. Verndarmerki samningsins er einmitt Blái skjöldurinn og er starf alþjóðsamtakanna grundvallað á ákvæðum og inntaki samningsins. Það er Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) sem heldur utan um framkvæmd samningsins.
Haag-samningurinn frá 1954 er fyrsti alþjóðlegi samningurinn sem ætlað er að vernda menningararf í vopnuðum átökum og varð til í kjölfar hildarleiks seinni heimsstyrjaldarinnar. Ríki sem eru aðilar að samningnum skuldbinda sig til að vernda menningarverðmæti þegar vopnuð átök eiga sér stað og nær samningurinn yfir hreyfanleg og óhreyfanleg menningarverðmæti, svo sem byggingar, listaverk, bækur, handrit, skjöl og menningarminjastaði án tillits til uppruna eða eignarhalds.
Gagnkvæmur ávinningur aðildarríkja að samningnum er m.a. sá að hann stuðlar að forvarnaaðgerðum á friðartímum með því að aðildarríkin skrá menningarverðmæti, gera neyðaráætlanir gegn eyðileggingu menningarverðmæta, undirbúa flutning hreyfanlegra menningarverðmæta og stuðla að verndun þeirra á vörslustað svo fátt eitt sé nefnt.
Landsnefnd Bláa skjaldarins fagnar þessum merka og langþráða áfanga sem mun hafa þau áhrif að betra yfirlit fæst yfir menningarverðmæti hér á landi með átaki í gerð viðbragðsáætlana á söfnum. Ekki síst mun það hafa áhrif beint og óbeint til betri og samhæfðari viðbragða til verndar menningarverðmætum þegar náttúruhamfarir verða, svo sem jarðskjálftar, eldgos og flóð.
Samkvæmt ákvæðum fyrsta viðauka samningsins hafa aðildarríki sex mánuði til að koma ákvæðum samningins í framkvæmd og er sú vinna hafin hjá stjórnvöldum.
Sjá nánar um Haag-samninginn frá 1954.
Sjá nánar um fyrsta viðauka Haag-Samningsins.