Hvað er Blái skjöldurinn?
Alþjóðasamtök Bláa skjaldarins – International Committee of the Blue Shield – voru stofnuð árið 1996 til að vinna að verndun menningararfs sem er í hættu vegna náttúruhamfara og stríðsátaka. Það voru aðilar alþjóðasamtaka safna (ICOM), menningarminjastaða (ICOMOS), skjalasafna (ICA) og bókasafna (IFLA) sem komu að stofnun Bláa skjaldarins en grundvöllur í starfi hans er Haag-sáttmálinn frá 1954. Eins og áður segir er markmið Bláa skjaldarins að vinna að verndun menningararfs heimsins með því að samhæfa viðbragðsáætlanir þar sem hættuástand verður.
Landsnefnd Bláa skjaldarins á Íslandi
Landsnefndum Bláa skjaldarins hefur verið komið á fót um allan heim og þær hafa víða unnið mikilvægt starf við verndun menningarverðmæta. Þann 24. október 2014, á degi Sameinuðu þjóðanna, var landsnefnd Bláa skjaldarins á Íslandi stofnuð en Íslendingar þekkja vel afl náttúrunnar og þær hamfarir sem geta orðið af hennar sökum á mannlegt samfélag. Markmiðið með stofnun landsnefndarinnar er meðal annars að auka fagþekkingu þeirra sem starfa á menningarsöfnum um vernd menningararfsins með tilliti til þeirrar vár sem kann að steðja að honum. Má þar nefna til dæmis viðbrögð við náttúruvá, svo sem jarðskjálftum og öskufalli vegna eldgosa, sem við höfum upplifað á síðustu árum. Í þessu tilliti skiptir einnig miklu að huga að fyrirbyggjandi vernd menningarminja.
Hér má sjá samþykktir Landsnefndar Bláa skjaldarins á Íslandi.
Á dagskrá nefndarinnar er að vinna að fræðsluefni og standa fyrir námskeiðum fyrir safnafólk og viðbragðsaðila. Auk þessara verkefna leggur landsnefndin áherslu að stjórnvöld fullgildi Haag-sáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 1954 um vernd menningarlegra verðmæta þegar átök eiga sér stað. Nú þegar hafa alls 127 af 193 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna fullgilt sáttmálann en Ísland er ekki meðal þessara 127 ríkja.
Eftir gosið í Eyjafjallajökkli 2010
Verkefni Bláa skjaldarins
Nefndin hefur sótt um og hlotið styrki til að vinna að tveimur verkefnum. Annars vegar fékkst styrkur til að vinna fræðsluefni um viðbrögð við og fyrirbyggjandi vernd við náttúruvá og koma á fót vefsíðu Bláa skjaldarins til að gera fræðsluefnið aðgengilegt. Hins vegar fékkst styrkur til að vinna tilraunaverkefni í Norðurþingi. Verkefnið er unnið í samvinnu við NKF-IS – Félag norrænna forvarða – Íslandsdeild, Menningamiðstöð Þingeyinga, Bókasafnið á Húsavík og Hvalasafnið á Húsavík. Tilgangur verkefnisins er að koma á fót viðbragðsteymi sérfræðinga og vinna viðbragðsáætlun vegna menningarminja í sveitarfélaginu Norðurþingi sem stafar hætta af náttúruvá eða vá af mannavöldum. Liður í þeirri vinnu er öflun heimilda og gerð fræðsluefnis um viðbragðsáætlanir sem birt verður á vef Bláa skjaldarins. Hluti verkefnisins er að koma á samstarfi og mynda tengslanet við almannavarnir og björgunaraðila í héraði um hvernig skuli haga björgunarstarfi með tilliti til menningarverðmæta ef hættuástand skapast. Hér er um tilraunaverkefni að ræða og sem slíkt mun það veita dýrmæta þekkingu og reynslu og nýtast sem grunnur fyrir frekari starfsemi Landsnefndar Bláa skjaldarins á landsvísu og samvinnu félaganna sem standa að baki landsnefndinni. Tveir starfshópar sem skipaðir hafa verið af landsnefnd Bláa skjaldarins vinna nú að verkefnunum tveimur. Heimasíða Bláa skjaldarins var tekin í notkun 2017, kláraðist tilraunaverkefnið um viðbragðsáætlun við vá í Norðurþingi 2018 og var gefin út skýrsla um verkefnið.
Nafnið Blái skjöldurinn vísar til bláa litarins í merki því sem menningarminjar, sem njóta verndar samkvæmt Haagsáttmálanum, eru auðkenndar með. Blái skjöldurinn er UNESCO og öðrum alþjóðlegum samtökum til ráðgjafar og innan vébanda hans eru sérfræðingar með fjölbreytta þekkingu á sviði varðveislu menningararfs. Það gerir samtökunum kleift að safna og deila upplýsingum um ógn við menningarminjar um allan heim og vera til ráðgjafar um viðeigandi ráðstafanir þar sem verða vopnuð átök eða náttúruhamfarir og senda sérfræðinga á vettvang.
Nefndarmenn hafa meðal annars kynnt Haag-sáttmálann og starf Bláa skjaldarins á fundi hjá landsnefnd um mannúðarrétt til að koma málinu áfram. Fullgilding sáttmálans hér á landi myndi þýða að styrkari stoðum yrði skotið undir vernd menningarverðmæta en með fullgildingu hans skuldbinda stjórnvöld sig til að virða eigin menningararf og annarra. Aðildarríki að sáttmálanum skuldbinda sig jafnframt til að gera ráðstafanir um vernd menningarverðmæta á friðartímum. Nú er unnið að þýðingu sáttmálans í Stjórnarráði Íslands og mun hann vonandi verða fullgildur á næstu misserum.
Landsnefnd Bláa skjaldarins 2023 – 2025
Aðalmenn:
Heiðar Lind Hansson, formaður (ICA)
Guðný Ragnarsdóttir, gjaldkeri (IFLA)
Inga Jónsdóttir, ritari (ICOM)
Sólrún Inga Traustadóttir, varaformaður (ICOMOS)
Varamenn
Karen Sigurkarlsdóttir (ICA)
Nathalie Jacqueminet (ICOM)
Guðný Kristín Bjarnadóttir (IFLA)
Ágústa Kristófersdóttir (ICOMOS)
– Skipuð á fundi landsnefndar BS 30.03.2023. Skipunartími 2023-2025.
Fyrri skipanir nefndarinnar:
Landsnefnd BS 2021 – 2023
Aðalfulltrúar:
Heiðar Lind Hansson, formaður (fulltrúi Alþjóðaskjalaráðsins, ICA)
Guðný Ragnarsdóttir, gjaldkeri (Alþjóðasamtaka bókasafna á Íslandi, IFLA)
Inga Jónsdóttir, ritari (Íslandsdeild ICOM)
Sólrún Inga Traustadóttir (Íslenska ICOMOS nefndin)
Varafulltrúar
Karen Sigurkarlsdóttir (ICA)
Nathalie Jacqueminet (ICOM)
Guðný Kristín Bjarnadóttir (IFLA)
Ágústa Kristófersdóttir (ICOMOS)
– Nefndin til starfa skv. tillögum aðildarsamtaka á fundi hennar 29.04.2021. Skipunartími er 2021-2023.
Landsnefnd BS 2019-2021
Karen Sigurkarlsdóttir fyrir hönd viðurkenndra fulltrúa Alþjóðaskjalaráðsins á Íslandi
Hulda Bjarnadóttir fyrir hönd alþjóðasamtaka bókasafna á Íslandi
María Karen Sigurðardóttir fyrir hönd Íslensku ICOMOS nefndarinnar og er hún formaður nefndarinnar
Anna Guðný Ásgeirsdóttir fyrir hönd Íslandsdeildar ICOM
Landsnefnd BS 2017-2019
Karen Sigurkarlsdóttir fyrir hönd viðurkenndra fulltrúa Alþjóðaskjalaráðsins á Íslandi
Jóna Kristín Ámundadóttir fyrir hönd alþjóðasamtaka bókasafna á Íslandi
María Karen Sigurðardóttir fyrir hönd Íslensku ICOMOS nefndarinnar
Nathalie Jacqueminet fyrir hönd Íslandsdeildar ICOM og er hún formaður nefndarinnar