Safnageymslur eftir Suðurlandsskjálftan 2008

Námskeið um öryggi menningarstofnana á Suðurlandi

Þann 29. október s.l. stóð Blái skjöldurinn fyrir námskeiði um öryggismál menningarstofnana fyrir safnafólk á Suðurlandi og þá aðila sem sjá um fyrstu viðbrögð við vá á svæðinu.

Natalie Jacqueminet, formaður Landsnefndar Bláa Skjaldarinns, kynnti tilraunaverkefni í Norðurþingi sem Blái skjöldurinn hefur gengist fyrir, þar sem farið var yfir viðbragðsáætlanir hjá öllum menningarstofnunum á svæðinu og þær samhæfðar við áætlanir almannavarna.

Tilgangur verkefnisins er að koma á fót viðbragðsteymi sérfræðinga og vinna heildstæða viðbragðsáætlun sem mun gagnast öllu landinu. Rifjað var upp með fundarmönnum þau áföll sem dunið hafa yfir Suðurland, jarðskjálfta og eldgos, og farið var yfir hver hefðu verið fyrstu viðbrögð, hvað hefði gengið vel og hvað hefði mátt fara betur. Einnig var rætt um áhættumat, rýmingaráætlanir og fleira gagnlegt.

Námskeiðið var fræðandi og gagnlegt, og vonast er til að fleiri námskeið verði haldin um land allt til að koma á samstarfi og mynda tengslanet safnafólks við almannavarnir og björgunaraðila í héraði um hvernig skuli haga björgunarstarfi með tilliti til menningarverðmæta ef hættuástand skapast.

 

Ráðstefna norrænna forvarða um þær hættur sem steðja að menningarminjum

Íslandsdeild Félags norrænna forvarða stóð fyrir alþjóðlegri ráðstefnu sem bar yfirskriftina: Cultural heritage facing catastrophe: Prevention and recoveries, og haldin var í Hörpu dagana 26. – 28. september 2018.

Fjöldinn allur af sérfræðingum, erlendum sem og innlendum, fluttu áhugverð og fræðandi erindi á ráðstefnunni en dagskráin var mjög fjölbreytt. Fulltrúar Bláa skjaldarins á norðurlöndum mættu á ráðstefnuna og var það tækifæri nýtt til að ýta undir tengslamyndun og funduðu landsnefndameðlimir norrænu þjóðana saman.

Meðlimir landsnefndar Bláa skjaldarins á Íslandi tengdust skipulagi og framkvæmd ráðstefnunnar. Nathalie Jacqueminet, formaður, og Njörður Sigurðsson voru fundarstjórar, einnig var Karen Sigurkarlsdóttir í skipulagsnefnd ráðstefnunnar. Auk þess flutti Nathalie erindi um björgunarstarf á Íslandi eftir jarðskjálftana á Suðurlandi 2008 og öskufallið úr Eyjafjallajökli árið 2010 sem leiddi til þess að BS á Íslandi var stofnaður.

Væntanlegt er ráðstefnurit sem mun bætast við fræðsluefni á sviði öggyggis og varðveislu menningararfs.

 

Ný vefsíða Alþjóðasamtaka Bláa skjaldarins hefur verið opnuð

Ný vefsíða Alþjóðasamtaka Bláa skjaldarins – International Committee of the Blue Shield hefur nú verið opnuð. Gamla vefsíða samtakana var komin verulega til ára sinna og var talið nauðsynlegt að uppfæra hana. Helstu markmið með nýju vefsíðunni eru að stuðla að auknu upplýsingaflæði milli yfirstjórnar, landsnefnda og almennings. Einnig að fræða um hlutverk og vinnu Bláa skjaldarins og stuðla að samræmingu og samvinnu milli landsnefnda samtakana.