Bruni í geymslum Reykjavíkurborgar við Fákafen 2002
Mikilvægt er að menningarstofnanir búi yfir viðbragðsáætlun sem hægt er að vinna eftir þegar áföll líkt og náttúruhamfarir eða annars konar hætta steðja að. Í slíkum tilfellum þurfa einstaka stofnanir sem og yfirvöld í hverju umdæmi fyrir sig að vita hvernig bregðast skal við og til hverra eigi að leita. Rétt viðbrögð geta bjargað menningarverðmætum en röng viðbrögð geta þýtt miklar skemmdir eða eyðileggingu á þeim.
Fyrirhyggja er lykilatriði til að hámarka björgun gripa og skjala. Góð áætlun verður að byggjast á rútínu verklags safnsins og vera skýr, sveigjanleg og raunhæf.
Viðbragðsáætlun hjálpar starfsfólki menningarstofnanna að:
-
forgangsraða aðgerðum
-
búa yfir þekkingu og þjálfun til að bregðast rétt við aðstæðum og koma í veg fyrir meiri skaða en ella
-
vera með tilbúinn lista yfir sérfræðinga og fyrirtæki sem leita þarf til vegna neyðarástandsins
Innri og ytri áhætta
Hægt er að tala um innri og ytri áhættu. Innri áhætta hefur með bygginguna sjálfa að gera eins og t.d. leki í pípum, óeðlilegar sveiflur í hita- og raka eða eldur. Ytri áhætta hefur með ytri aðstæður að gera eins og náttúruhamfarir, loftlagsbreytingar eða jarðvegseyðing vegna veðrunar. Hér er einnig talin upp vá og hættuástand af ýmsum toga (Handbók um varðveislu safnkosts – fyrra bindi og seinna bindi)
-
Eldhætta
-
Vatnstjón og flóð
-
Ofviðri
-
Jarðskjálftar
-
Eldgos
-
Veitubilanir
-
Spilliefnaslys
-
Samgönguslys
-
Borgararóstur og spellvirki
-
Sprengingar
-
Hrun bygginga
Almannavarnir
Almannavarnir stjórna aðgerðum þegar neyðarástand skapast vegna náttúruhamfara. Því er mikilvægt að forstöðumenn og starfsfólk menningarstofnana eigi í góðu samstarfi við Almannavarnir í sínu umdæmi og að sérþarfir stofnanna séu þekktar. Skilningur þarf að vera til staðar um að safnkostur menningarstofnanna er oftast verðmætari en byggingarnar sem hýsa hann. Byggingar má endurreisa en menningarverðmæti verða aldrei bætt.
Alls eru 21 almanavarnanefnd starfandi í umdæmum landsins sjá síðu Almannavarna